top of page

Málefnin

„Mér fylgja ófrávíkjanlega þrenn grunngildi; lýðræði, tjáningarfrelsi og jafnræði. Þau iðka ég eftir minni allra bestu getu hverju sinni enda tel ég þau hornstein gróskumikils samfélags.“

Lýðræði og tjáningarfrelsi eru dýrum dómum keypt með mannslífum. Þau eru best heiðruð með því að iðka þau, slá skjaldborg um og vernda átakalaust. Það er hlutverk okkar að standa upp og stíga fram, hvetja fólk áfram til dáða, rýna eigin kenndir og tilfinningar, hlusta á Þorpið okkar í hinu smáa og stóra samhengi og feta þannig tilveruna skref fyrir skref – en alltaf samferða. 


Við eigum að slá skjaldborg um lýðræðið með því að iðka það – átakalaust. Það er eðlilegt og sjálfsagt á Íslandi að fólk standi upp og stígi fram, gefi kost á sér og eigi jöfn tækifæri til að vera rödd í samfélaginu og samtímaspegill. Ríkidæmi okkar felst í því að við veitum okkur þessi mannréttindi, verndum þau og sýnum fólki sem vill okkur þjóna þakklæti, hvatningu og stuðning.

LÝÐRÆÐI

Nóbelsverðlaunahafinn Maria Ressa deildi Friðarverðlaunum Nóbels árið 2021 með Dmitry Muratov fyrir „verndun á tjáningarfrelsi, sem er forsenda fyrir lýðræði og friði“. Hún kom til Íslands árið 2019 og varð að orði: „lygi á Filippseyjum er lygi á Íslandi á sömu sekúndu á Netinu“. Þessi orð hafa setið í mér síðan. Á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna 2023 var mikið rætt um hvernig tæknin gæti bæði orðið lýðræði til góðs en einnig til nauðungar.  Það er mikill kynjahalli í tækni sem hefur neikvæð áhrif á samfélagsþróun um allan heim sem og þátttöku kvenna á opinberum vettvangi. Jafnrétti stendur í stað eða fer hnignandi í Alþjóðaþorpinu, sums staðar um áratugi. Konur sækja til dæmis síður fram eða hætta í opinberri þjónustu sem er bæði spekileki og meiðandi fyrir samfélög. Við þessa þróun verður ekki búið og það er okkar hlutverk að tryggja að á Íslandi sé borin virðing fyrir tjáningarfrelsi og mikilvægi þess.


Tjáningarfrelsi eru tvö orð; tjáning og frelsi. Orð eru til alls fyrst og það er gríðarlega mikilvægt að fólk þjálfi gagnrýna hugsun með jákvæðum og íhugandi samskiptum. Að búa til Samfélag sem er að breytast og blandast hratt knýr okkur til að líta inn á við og spyrja: „Hvernig samfélagi vil ég búa í? Hvernig get ég aðstoðað við að búa það til? Hver er sannleikurinn og hvernig komust við að honum?“ Tjáning felur enn fremur í sér að standa með sjálfri sér og með sínum gildum. Frelsi fylgir ábyrgð, traust og rými til að tala sig að niðurstöðu. Það er nauðsynlegt þroskamerki þjóðar að þora að taka samtalið um krefjandi málefni. Til þess þarf að veita rými og tíma. Dýptin, og þar með lærdómurinn, leynast þar. 


Val er vald og við erum þess megnug að geta skapað okkar eigin framtíð með því sem við veljum. Lifað Samfélagið sem við þráum að búa í. Tekist þannig á við hverjar þær áskoranir sem okkur mæta í sameiningu og samstöðu.


https://en.wikipedia.org/wiki/Maria_Ressa 
https://en.wikipedia.org/wiki/Dmitry_Muratov 

TJÁNINGARFRELSI

Fylgifiskur fjölmenningarsamfélags er að það myndast ósjálfrátt fleiri glerþök. Ekki einungis er tungumálið innflytjendum fjötur um fót, einnig vanmetum við hæfni og þekkingu þeirra sem til landsins flytja og oft erum við sein að blanda íbúum landsins í störfum og stöðum óháð lýðbreytum. Það er grafalvarlegur spekileki í mínum huga sem við þurfum að takast á við í sameiningu og laga.


Það er kjark og myndugleika stjórnvalda að þakka að jafnrétti er hér best í heimi 14 ár í röð. Þó getum við gert talsvert betur. Komandi tímar krefjast þess að við þurfum allar hendur á dekk – samhentar og með sem jöfnust tækifæri.  Leiðin til þess að stunda jafnræði er ekki einungis mótandi lagasetningar eins og í jafnréttisvegferð okkar, heldur einnig í gegnum samhygð, samvinnu og samstöðu. Okkur mun farnast afar vel þegar við finnum í hjörtum okkar að fjölbreytni er lykill að grósku, framþróun og friði.


Stundum því lýðræði og tjáningarfrelsi í hvívetna með jafnræðisgleraugun á nefinu. Æfum okkur linnulaust. Æfingin skapar meistarann.


Frú Forseti þjónustar allt landsfólk óháð lýðbreytum – aldri, kynjum og uppruna – með alúð og umhyggju fyrir hina viðkvæmu hópa sem ekki eru tekjuberandi; unga, aldna og sjúka og ekki síst þá dýrmætu einstaklinga sem hingað leita en hafa ekki þegnréttindi - ennþá. Alveg eins og gróska í listum er mælikvarði á ríkidæmi samfélags þá er styrkur samfélags mældur best á því hvernig við hlúum að viðkvæmum hópum. Við erum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn.

JAFNRÆÐI

Líf Sigríðar í áratugum

Áratugirnir

Sigríður hefur birt fjölda greina og farið í viðtöl

Viðtöl & greinar

Fjölbreyttur starfsferill & víðtækt nám

Starf & nám

Málefnin eru brín og það skiptir máli að standa við þau

Málefni

Hvað er á döfinni?

Fréttir

Við svörum fyrirspurnum við fyrsta tækifæri en vonum að þú sýnir okkur biðlund vegna fjölda fyrirspurna

Senda fyrirspurn

bottom of page